Friday, March 2, 2007

Ræpan eykst

Loksins komin helgi. Var farinn að örvænta. Hélt um miðja viku að tíminn stæði í stað. En nú er svo komið að tveir frídagar eru framundan þó svo að ég verði að fara yfir ritanir, ritgerðir og stærðfræðipróf þessa daga. Ætti kannski að vera að gera það núna í staðinn fyrir að skrifa inn á bloggið mitt.

Hef ekki ennþá fengið nein viðbrögð við síðasta bloggi. Vildi fá blammeringar á hin ýmsu störf í þjóðfélaginu. Félagi minn sat á fundi með hússtjórn byggingar hér í bæ. Þeir þurfa að fá eftirlitsmann, tæknimenntaðan til að fylgjast með viðgerðum og breytingum sem þarf að gera á byggingunni. Þeir fást ekki til þess fyrir minni pening en 400.000 kr. Viðkomandi einstaklingar eru svo oft með tvær til þrjár byggingar í einu og láta nægja að líta við endrum og eins til að athuga hvort allt sé í lagi. Ég spyr bara: "ER SVONA BULL Í LAGI?" Þetta þjóðfélag er komið út í tómt rugl þegar laun eru annars vegar. Þetta eru svo kannski einstaklingarnir sem gagnrýna kennaralaunin hvað mest.

Thursday, March 1, 2007

Eitthvað er fólk að heimta...

Var skyndilega minntur á að ég héldi úti bloggsíðu. Hef ekkert skrifað í einhverjar vikur. Ætla ekki að afsaka það enda hef ég ekkert mér til afsökunar.

Það er nokkuð ljóst að sú stétt sem ég tilheyri er í mikilli vörn þessa dagana. Alltaf erum við sökuð um að vera ekki að vinna vinnuna okkar. Og alltaf erum við sívælandi út af launum sem við eigum hvort eð er ekki skilið að fá vegna þess að við erum aldrei í vinnunni heldur sífellt í fríi. Búin að kenna klukkan eitt á daginn og yfirleitt að slæpast það sem eftir er dagsins heima hjá okkur.

Þetta er náttúrlega allt dagsatt og því ætla ég ekki að reyna rökstyðja eða afsaka neitt annað. Aftur á móti ætla ég að velta upp nokkrum spurningum sem við getum notað á móti í þessari umræðu.

Ef um ræðir smiði: "Hva, eru smiðir ekki alltaf að vinna svart og svíkja undan skatti?"
Læknar: "Hvernig er þetta með lyfjafyrirtækin. Fórstu á síðustu kynningu? Hvað færð þú mikið í þinn hlut?"
Einkarekin fyrirtæki: "Hva, er bíllinn skráður á fyrirtækið?"

O.s.frv.

Endilega sendið mér línu ef þið viljið bæta einhverju við.