Tuesday, December 19, 2006

Jólabókaflóðið

Nýtt blogg komið í loftið. Verður vonandi meira notað heldur en gamla bloggið. Komst að því að það bar ekki lengur íslenska stafi þannig að nýtt blogg var orðið nauðsyn.

Nú eru fimm dagar þangað til við setjumst við veisluborð í tilefni jólanna. Krakkarnir streyma út úr skólunum á morgun og komast í langþráð jólafrí og kennararnir líka, frelsinu fegnir eftir langa og stranga önn. Ég bíð bara eftir þeirri langþráðu stund að fá að setjast niður í stól með góða bók og hafa ekki áhyggjur af neinu. Það verður þó líklega ekki fyrr en á aðfangadagskvöld eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir og bækurnar teknar upp. Þá kemur líka í ljós hvað okkar ástkæru höfundar hafa upp á að bjóða þessi jólin.

Jólabókaflóðið þessi jól hefur ekki verið eins spennandi og mörg undanfarin ár. Ég átti fullt í fangi með að átta mig á hvaða titlar myndu verða mest áberandi í sölu. Þegar fór að líða nær jólum tóku þó línur að skýrast. Ef við sneiðum fram hjá augljósustu vinsældahöfundunum, Arnaldi og Ólafi Jóhanni berast böndin helst að Auði Jónsdóttur eða Braga Ólafs. Síðustu bækur Auðar og Braga, Fólkið í kjallaranum og Samkvæmisleikir voru mjög athyglisverðar. Einar Már er einnig að senda frá sér ljóðabók þessi jól. Ef þessi ljóð eru eitthvað svipuð fyrri ljóðum Einars má ætla að hér sé á ferðinni heillandi heimur ættaður úr yðrum Einars.

Bók Guðbergs Bergssonar hljómar einnig spennandi 1 1/2 bók Hryllileg saga. Titillinn einn gefur fyrirheit um skemmtilegt innihald. Þar tekur hann fyrir islenska menningu allt frá yfirráðum dana til okkar dags. Ég treysti Guðbergi fullkomlega til að draga fram í dagsljósið þá fyrringu sem er í okkar samfélagi og benda á það sem betur mætti fara.

Annars er núna á náttborðinu bókin: "The Fabric of the Cosmos - Time, Space and the Texture of Reality". Bók sem skýrir út á einfaldan hátt öll þau flóknu hugtök eðlisfræðinnar sem leggja grunninn að skynjun okkar á heiminum. Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta virkilega skemmtileg lesning. Æskilegt er þó að lesandi hafi staðgóða þekkingu á hugtökum eðlisfræðinnar og kunni ögn í ensku áður lestur er hafinn.

Þið sem lesið þetta ættuð því að getað áttað ykkur á hvaða bækur er æskilegt að gefa mér í jólagjöf.