Friday, January 5, 2007

Homo Sapiens vs. Homo Fictious

Fimmti janúar er risinn og allt með kyrrum kjörum á Vesturvígstöðunum. Með frið í hjarta og gleði í sinni hélt ég til vinnu í morgun mikið feginn því að hafa loksins tekist að koma blessuðum sólarhringnum aftur á réttan kjöl. Ég jafnframt lofa því að tala ekki frekar um svefnvenjur mínar nema eitthvað skemmtilegt gerist í þeim geiranum.

Las með morgunseríosinu (verð líklega að skilgreina það frá hádegis- og kvöldseríosinu) upphafið af bók sem heitir: "How to write a damn good novel." Fyrsti hluti þeirrar ágætu bókar fjallar um persónusköpun og þá staðreynd að mannverur eru leiðinlegar en skáldsagnapersónur skemmtilegar, athyglisverðar og frábærar. Þær eru sterkari, ríkari, grimmari, miskunnlausari, fallegri, ljótari, stunda meira kynlíf eða hreinlega á allan hátt flottari en við mannfólkið sem virðumst sulla um í meðalmennskunni meira en góðu hófi gegnir. Þess vegna hef ég ákveðið í dag að lifa lífinu eins og Ríkharður Ljónshjarta... (kannski ekki góð hugmynd þar sem hann lifði skírlífi) eða James Bond (úhhh... það er sko nagli sem stundar fullt af kynlífi) eða Bósi Ljósár, Logi Geimgengill eða eða eða...

Ætli ég verði ekki að sætta mig við að vera Meðal-Jón sem gerir aldrei neitt athyglisvert sem birta ætti í bók eða á forsíðum blaða. Þjóðarsál Íslendinga segir þó að maður sé ekki maður með mönnum fyrr en mynd og grein hefur verið birt í DV. Þá fyrst má setja fólk í annála og bera það á torg. Alltaf dreymt t.d. að verða flugdólgur.

Seinni hluta dagsins í dag ætla ég að nota til að þrífa, syngja, hlaupa og sofa. Ég ætla að framkvæma þessa hluti eins og James Bond myndi annast þá. Í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og lakkskóm ætla ég að skúra og skrúbba allt hátt og lágt. Þetta mun ég gera án þess að svitna eða fá svo mikið sem einn skítablett á fötin. Alveg eins og JB eftir að hann er búinn að drepa þrjátíu, sprengja upp þyrluna og skríða um skólpræsið til að flýja hryðjuverkamennina.

Hallelúja...

No comments: