Tuesday, January 2, 2007

Fríið búið og barningurinn byrjar

Frá áramótum hefur fátt markvert gerst. Nýársdagur leið eins og venjulega við át á afgöngum frá gamlárskvöldi. Einnig var tekið í spil og reynt að vinna upp spilatapið sem við urðum fyrir vegna utanlandsferðar Helgu og Andrésar. Þau ákváðu að halda upp á jólin í Hong Kong, s.s. á stað þar sem engin jól eiga að vera til. Þeirra aðfangadagskvöld fór fram á fimm stjörnu matsölustað og endaði í drykkjukeppni við innfædda þar sem þau sigruðu í öllum flokkum.

Annan janúar gerðist hreinlega ekki neitt. Fór á fætur klukkan 13:10 og hékk yfir sjónvarpinu fram eftir degi. Þrátt fyrir 60 stöðvar var ekkert á dagskrá. Horfðum því á fyrstu Star Wars myndina í 310. skipti og nutum nýrra hljómgæða á nýjustu útgáfunni í heimabíóinu. Fljótlega var dagurinn búinn og komið kvöld enda lítið eftir af deginum þegar við fórum á fætur. Tók einn 10 km sprett um bæinn fyrir kvöldmat í fljúgandi hálku. Þeir sem sjá um að sanda göngustíga og gangstéttar í bænum þurfa að taka sig taki. Það hættulegasta sem þeir geta gert er að skilja eftir eyður í söndun. Við sem förum um á tveimur jafnfljótum erum svo fljót að komast upp á lagið þegar söndunin er í lagi. Fljúgum svo á hausinn þegar skyndilega kemur opið svell. Þetta má ekki gerast. Bechtel hringdi í gær í Þóru. Hún er ekki alveg laus við þá. Hún setti þeim þó afarkosti, ætlar ekki að vera fyrir austan meira en þrjá daga í einu. Spurning hvað InPro segir við því.

Þriðji janúar. Framundan er frekar undarlegur dagur. Er ekki búinn að sofa dúr í alla nótt enda löngu búinn að snúa sólarhringnum við. Eyddi nóttinni við að lesa um strengjakenninguna, hvernig strengirnir tengjast við himnur í alheiminum. Þar lærði ég einnig um nýjustu hugmyndina um þrívíðar himnur (hvernig sem þær líta út) sem við búum í og hvernig þær eru svo hluti af öðrum himnum sem við vitum ekkert um en eru samtímis við hliðina á okkar. Þessu skolaði ég niður með Andrési Önd í morgunsárið ásamt þætti um hlutverk þyrlna í nútímastríði. Tvöfaldur expresso fylgir mér svo vansvefta út í daginn. Mikið ofboðslega verð ég feginn þegar þessu tilgangsleysi líkur. Að vísu er alveg á hreinu að um leið og ég byrja að vinna nenni ég því ekki heldur og þrái að komast í frí aftur. Ég á svo bágt... eða hitt þó heldur.

No comments: