Thursday, January 4, 2007

Flæði og kulnun

Þriðji janúar leið eins og hver annar dagur. Mætt var til vinnu á skipulagsdegi og þar voru næstu skólavikur skiplagðar með stæl. Hélt þó fyrst að ég væri ruglast þegar ég mætti klukkan 7:30 og allt var slökkt. Var næstum farinn heim að sofa aftur enda sólarhringurinn alveg á hvolfi eftir langt og ljúft frí. Hef ruglast á dögum áður.

Kjörorð dagsins voru flæði og kulnun. Flæði er að gleyma sér í vinnunni af því það er svo gaman. Flæði er að vera að í núinu og uppgötva allt í einu að tíminn hefur liðið allt of hratt af því það var svo mikið jákvætt að gerast. Þeir sem þekkja eitthvað til kennslu vita að allir dagar eru svona ef við njótum þess sem við erum að gera. Það eru alltaf mánudagar og föstudagar í þessu starfi. Hinir dagarnir þjóta framhjá í móðu. Stundum koma þó krumpur eða rifur í flæðið. Þá verður maður neikvæður, pirraður, þreyttur og með allt á hornum sér.

Fjórði janúar og nú kemst þessi dagbók vonandi á rétt ról. Eins og sjá má þá er dagbókin á Hawaii tíma og því eru tímasetningar algjörlega út í hött.

Enn ein andvökunótt. Las um nýjar kenningar um myndun alheimsins. Var eitthvað búinn að tala um himnurnar áður en samkvæmt þessum nýju kenningum er alheimurinn gerður úr þrívíðri himnu sem er haldið saman af orkuríkum strengjum. Annar alheimur gerður úr samskonar himnu er í minna en 1/10 úr millimetra fjarlægð frá okkur. Þessi alheimur er þó í annarri vídd og þess vegna sjáum við hann ekki. Upphaf alheimsins varð þegar bilið á milli þessarra vídda varð skyndilega núll og við það losnaði ofsafengin orka. Himnurnar þöndust út og alheimurinn eins og við þekkjum hann myndaðist smátt og smátt. Eftir okkar daga mun alheimurinn halda áfram að þenjast út og efnið í honum þynnast þangað til hann lítur út fyrir að vera algjörlega kulnaður. Gerist eftir trilljón ár eða svo. Þá munu himnurnar endurtaka leikinn og þenjast út af svipuðum hætti. Eða þannig...

Fræðilegt efni sem hefði í flestum tilfellum dugað til að svæfa flóðhest en ekki mig.

Annars var dagurinn fínn. Krakkarnir skemmtilegir og gaman að vera til. Hvernig voru annars kjörorð gærdagsins - Flæði og Osmósa?

No comments: